Skip to main content

Fréttir

Styrkir veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur úthlutaði á dögunum 15 milljónum króna til styrktar verkefnum sem öll miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga. Styrkirnir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum (sjá nánar um sjóðinn).

Tveir styrkir komu í hlut starfsmanna og verkefna á vegum Árnastofnunar. Í frétt á vef Háskóla Íslands segir um þessi verkefni:

„Branislav Bédi, verkefnisstjóri við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hlýtur framhaldsstyrk til að vinna að íslensk-þýskri veforðabók, LEXÍU. Veforðabókin er unnin í samstarfi við Háskólann í Vínarborg og verður ókeypis og öllum aðgengileg á vefnum. Markmiðið er að hún verði hjálpartæki við íslenskukennslu á þýska málsvæðinu en einnig er hún ætluð íslenskum nemendum í þýsku sem og þýðendum íslenskra og þýskra bókmennta. Gögn úr veforðabókinni birtast nú þegar á málið.is sem er afar gagnlegt fyrir notendahópinn. Enn fremur mun LEXÍA mynda stofn til málrannsókna milli málanna tveggja, t.d. við málvísindalegar athuganir, og efniviðurinn getur nýst í máltækniverkefni.“

„Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir, orðabókarritstjórar hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hljóta framhaldsstyrk til að vinna að nýrri íslensk-enskri veforðabók. Byggt er á efni sem til er hjá stofnuninni, en þar hafa orðið til fjölbreytt tungumálagögn í gegnum tíðina í tengslum við rafrænar orðabækur. Notaðar eru að talsverðu leyti máltæknilegar aðferðir til að fá fram enska markmálið, bæði stök orð og þýðingar á dæmum og orðasamböndum, m.a. er notast við vélþýðingar. Allt efnið er svo yfirfarið af starfsmönnum verkefnisins. Þetta er frumraun við að búa til orðabók með þessum hætti fyrir íslensku og hefur aðferðin gefið góða raun og áhugaverðar niðurstöður. Þess er vænst að hægt verði að birta fyrsta áfanga orðabókarinnar á þessu ári.“

Sjá fréttina í heild á vef Háskóla Íslands.

Tveir menn halda á viðurkenningarskjali. Rauðleit gluggatjöld í bakgrunni.
Branislav Bédi og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Kristinn Ingvarsson
 
Tvær konur og karl. Kona í miðjunni heldur á viðurkenningarskjali. Rauðleit gluggatjöld í bakgrunni.
Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.
Kristinn Ingvarsson