Skip to main content

Fréttir

Styrkir til háskólanáms í íslensku sem öðru máli

Síðan 1949 hefur menntamálaráðuneytið veitt erlendum námsmönnum styrki til íslenskunáms við Háskóla Íslands. Á árinu 2010 tók Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að sér umsýslu með styrkjunum. Á þessu ári er veittur þúsundasti styrkurinn. Styrkþegarnir eru þar með orðnir 757 en sumir hafa hlotið styrk oftar en einu sinni, jafnvel í þrjú ár til að geta lokið BA-prófi í íslensku sem öðru máli. Styrkirnir eru einkum ætlaðir þeim sem þegar hafa lagt stund á íslensku eða önnur norræn mál í heimalöndum sínum.

Þúsundasta styrkinn hlýtur Rebecca Merkelbach frá Þýskalandi. Hún lauk BA-prófi í ensku og norrænum málum frá háskólanum í Tübingen árið 2011, MPhil-prófi í engilssaxnesku, norrænu og keltnesku frá Cambridgeháskóla 2012 og stundar nú doktorsnám við sama skóla. Efni doktorsritgerðar hennar verða jaðarpersónur í íslenskum fornsögum. Aðalleiðbeinandi hennar er dr. Judy Quinn, dósent við Cambridgeháskóla.

Í upphafi voru styrkþegar aðeins fimm en fyrir efnahagshrunið 2008 voru þeir orðnir hátt í 30. Vegna niðurskurðar hafa þeir hins vegar aðeins verið 18 á síðastliðnum árum.

Styrkþegarnir hafa komið frá 41 landi í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, flestir frá Bretlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Þess má geta að í hópi þeirra sem hafa notið styrkja frá upphafi eru margir háskólaprófessorar í norrænum fræðum, íslenskukennarar við erlenda háskóla og mikilvirkir þýðendur íslenskra bókmennta.

Af þeim rúmlega 1000 erlendu nemum, sem sækja nám við Háskóla Íslands, stunda nú um 300 nemar íslensku sem annað mál.