Skip to main content

Fréttir

Styrkir Snorra Sturlusonar veittir í tuttugasta og fyrsta sinn

Snorralaug í Reykholti. Mynd: Kristín M. Jóhannsdóttir.

 

Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.

Styrkir Snorra Sturlusonar fyrir árið 2013 voru auglýstir í júlí sl. með umsóknarfresti til 1. nóvember. Níutíu og sex umsóknir bárust frá tuttugu löndum.

Í úthlutunarnefnd styrkjanna eiga sæti Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor, formaður, Ásdís Egilsdóttir, prófessor, og Ingibjörg Haraldsdóttir, rithöfundur. Nefndin hefur nú lokið úthlutun.

Þau sem hljóta styrki árið 2013, til þriggja mánaða hvert, eru:

Dr. Chistopher Patrick Callow, lektor í miðaldasögu, Birminghamháskóla á Englandi, til að skrifa bók um víkingaferðir, landnám og þjóðfélög norrænna manna á miðöldum.

Dr. Nicole Dehé, prófessor við háskólann í Konstanz í Þýskalandi, til að vinna að rannsóknum á hljóðfalli og áherslum í íslensku máli.

Mátyás Dunajcsik, rithöfundur, þýðandi og bókmenntaritstjóri í Búdapest í Ungverjalandi, til að kynna sér íslenska bókaútgáfu, miðla íslenskum samtímabókmenntum til Ungverja og skrifa.