Skip to main content

Fréttir

Styrkir Snorra Sturlusonar veittir í sextánda sinn

Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.

Styrkir Snorra Sturlusonar fyrir árið 2008 voru auglýstir  í júlí sl. með umsóknarfresti til 1. nóvember. Fjörutíu umsóknir bárust frá tuttugu og þremur löndum. Í úthlutunarnefnd styrkjanna eiga sæti Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor, formaður, Ásdís Egilsdóttir, dósent, og Ingibjörg Haraldsdóttir, rithöfundur. Nefndin hefur nú lokið úthlutun.

Þau sem hljóta styrki árið 2008, til þriggja mánaða hvert, eru:

  • Dr. Christopher Abram, lektor við University College London, Bretlandi, til að vinna að bók um norræna goðafræði og viðtökur á Eddunum á síðari öldum.
  • Dr. Jakub Morawiec, fræðimaður við Silesíuháskóla í Katowice, Póllandi, til að vinna að þýðingu á Hallfreðar sögu vandræðaskálds á pólsku, skrifa fræðilegan inngang að þýðingunni og taka saman skýringar við söguna.
  • Dr. Hélène Tétrel, lektor við Bretaníuháskólann í Brest, Frakklandi, til að vinna að þýðingu á Breta sögum á frönsku og rannsókn á viðtökum Historia Regum Britanniae í Norðvestur Evrópu.