Nánar um styrkina: Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands. Frekari upplýsingar um styrkina og umsóknarferilinn má nálgast á heimasíðu stofnunarinnar.
Styrkir Snorra Sturlusonar fyrir árið 2025 voru auglýstir í september síðastliðnum með umsóknarfresti til 1. desember. Þrjátíu umsóknir frá nítján löndum bárust áður en umsóknarfrestur rann út. Í úthlutunarnefnd styrkjanna eiga sæti Branislav Bédi formaður nefndarinnar, Gunnþórunn Guðmundsdóttir prófessor og Sindri Freysson rithöfundur. Nefndin hefur nú lokið störfum. Styrkþegar að þessu sinni eru:
Dr. Sigrun Borgen Wik frá Nord-háskólanum í Bodø í Noregi mun rannsaka lýsingar á áeggjunum og heiðri í Íslendingasögum.
Dr. Théo de Borba Moosburger frá Kaþólska háskólanum í Paraná í Brasilíu mun vinna að þriðja og síðasta bindi kennslubókar sinnar „Lendo em Nórdico“ (Lesum á forníslensku) sem ætluð er portúgölskumælandi lesendum.