Sunnudaginn 27. júlí verður efnt til Sturluhátíðar í Dalabyggð. Sturla Þórðarson, sagnaritari og skáld, fæddist 29. júlí 1214 og á þessu ári eru 800 ár liðin frá fæðingu hans. Hátíðin verður haldin að Tjarnarlundi í Saurbæ en Tjarnarlundur er einmitt í landi Staðarhóls þar sem Sturla skrifaði stóran hluta mætustu verka sinna.
Hátíðin hefst klukkan 13,30 og stendur fram eftir degi. Dagskráin verður kynnt síðar en meðal gesta verður forseti norska stórþingsins en Sturla var lengi í Noregi og skrifaði Hákonarsögu gamla. Þá mun Einar Kárason rithöfundur fjalla um Sturlu en hann hefur sem kunnugt er skrifað þrjár skáldsögur frá Sturlungatímanum á Íslandi. Ennfremur mun Guðrún Nordal, forstöðumaður Sofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, flytja erindið Arfleifð Sturlu Þórðarsonar.
Sturluhátíð er komin á Facebook.