Skip to main content

Fréttir

Strengleikar - Miðaldastofa: Ásdís Egilsdóttir

 

Miðaldafræðimálstofan Strengleikar:
Ásdís Egilsdóttir
Hversu íslenskir eru íslenskir dýrlingar?
Fimmtudaginn 7. mars kl. 16.30
Árnagarði 422


Skiptir þjóðerni máli þegar dýrlingar eiga í hlut? Dýrka mátti hvaða erlendan dýrling sem er á Íslandi og á miðöldum þekktu Íslendingar píslarsögur og lífssögur þeirra. Þeir dýrlingar sem mestrar hylli nutu voru í senn alþjóðlegir og þjóðlegir. Þegar helgir dómar þeirra voru færðir til kirkju og/eða sagnir af þeim þýddar á þjóðtunguna voru þeir "staðfærðir" og urðu hluti af heimamenningu viðtökuþjóðarinnar. Óhætt virðist þó, að gera ráð fyrir að íslenskur dýrlingur hafi haft nokkra sérstöðu í hugum Íslendinga og tilhneiging hefur verið meðal fræðimanna til að leggja áherslu á þjóðleg einkenni íslenskra dýrlinga. Hér verður því aftur á móti haldið fram að fyrir íslenskum helgisagnariturum hafi vakað að sýna fram á að íslenskir dýrlingar hafi verið alþjóðlegir og þar af leiðandi raunverulegir dýrlingar.

Ásdís Egilsdóttir er prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.