Skip to main content

Fréttir

Stóra upplestrarkeppnin - lokahátíðir víðs vegar um landið


Á næstu vikum fara fram lokahátíðir Stóru upplestrarkeppninnar víðs vegar um landið. Alls verða hátíðirnar 32 -- sú fyrsta fer fram í Tónbergi, Tónlistarskólanum á Akranesi miðvikudaginn 5. mars kl. 20.00 en sú síðasta verður föstudaginn 18. apríl kl. 20.00 í Hömrum, Tónlistarskóla Ísafjarðar. Á hátíðunum koma fram úrvalslesarar úr 7. bekk grunnskóla í hverju héraði og flytja ljóð og laust mál eftir skáld keppninnar, sem að þessu sinni eru Jón Sveinsson (Nonni) og Steinn Steinarr. Einnig flytja lesararnir ljóð að eigin vali. Aðgangur að hátíðunum er ókeypis og öllum heimill.

Stóra upplestrarkeppnin hefur nú verið haldin í meira en áratug en að henni standa Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara um land allt. Íslensk málnefnd á aðild að Röddum.