Skip to main content

Fréttir

​Stofnun Árna Magnússonar hlaut tvo styrki úr máltæknisjóði

Máltæknisjóður veitti 16,9 milljónum í verkefnið Enduruppbygging Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls. Í verkefninu verður smíðaður nýr gagnagrunnur utan um beygingarlýsinguna sem býður upp á nákvæmari greiningu gagnanna. Bætt greining gefur kost á fjölbreyttari nýtingu gagnanna, t.d. við gerð kennsluefnis eða önnur leiðbeinandi not. Þá verður beygingagrunnur til nota í máltækni skilinn frá beygingarlýsingunni og gefinn út sérstaklega og undir öðru nafni. Verkefnisstjóri er Kristín Bjarnadóttir.

5,4 milljónum var veitt í verkefnið Samhliða málheild fyrir vélþýðingar. Í verkefninu verður kortlagt hvaða gögn hægt er að nota til að setja saman samhliða málheild sem nýta má við þjálfun vélþýðingarbúnaðar. Þá verður sett saman málheild úr tiltækum textum sem ekki eru háðir takmarkandi leyfum. Verkefnisstjóri er Steinþór Steingrímsson.

Steinþór Steingrímsson og Kristín Bjarnadóttir.