Útlendingar sækja í auknum mæli í nám í íslensku vegna áhuga á rokktónlist. Rúmlega eitthundrað manns sóttu um að stunda nám í íslensku og íslenskri menningu hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í sumar. Einungis 35 fengu inni. Úlfar Bragason, stofustjóri Stofu Sigurðar Nordals, hefur orðið var við að áhugi þeirra sem taka þátt í námskeiðunum núna sé annar en var fyrir tíu árum: ,,Þá var þar fólk meira í miðaldafræðum sem vildi lesa Egils sögu og Njálssögu og var mjög áhugasamt að fara á söguslóðir eins og við gerum ennþá. En ég hef verið að leika mér að því að segja að nú verðum við að fara á söguslóðir Sigur rósar og Bjarkar í staðinn fyrir Njáls og Gunnars." Hlusta má á fréttina og horfa á myndskeið á heimasíðu Morgunblaðsins.