Skip to main content

Fréttir

Snorrastyrksþegar 2022

Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að efna til styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.

Styrkir Snorra Sturlusonar fyrir árið 2022 voru auglýstir í júlí á síðastliðnu ári með umsóknarfresti til 1. desember. Níu umsóknir frá sjö löndum bárust áður en umsóknarfrestur rann út. Í úthlutunarnefnd styrkjanna eiga sæti Branislav Bédi formaður nefndarinnar, Pétur Gunnarsson rithöfundur og Sif Ríkharðsdóttir prófessor. Nefndin hefur nú lokið störfum.

Þeir sem hlutu styrk að þessu sinni:

Dr. Andreas Schmidt er með doktorsgráðu í fornnorrænum bókmenntum frá Ludwig-Maximilians-háskóla í München og hyggst rannsaka tvíræðni í frásagnarlegu tilliti í Íslendingasögum.

 

Dr. Jan A. Kozák  er með doktorsgráðu í trúarbragðafræði frá Karls-háskóla í Prag og starfar sem aðjunkt við sama háskóla. Hann ætlar að þýða Hrólfs sögu kraka á tékknesku. Auk þess hyggst hann rannsaka ummyndun villidýra í fornaldarsögum og goðafræði Eddukvæða frá sjónarhóli hugrænna fræða og táknfræða og skrifa fræðilega grein um það efni.

 

Dr. Stefan Andreas Drechsler starfar sem nýdoktor við Háskólann í Björgvin.

Stefan ráðgerir meðal annars að útbúa skrá yfir allt myndefni sem finnst í íslenskum lagahandritum frá um 1250–1600. Auk þess ætlar hann að rannsaka tengsl á milli texta og mynda og samhengi þeirra í þessum handritum.

 

Við óskum styrkþegum til hamingju.