Skip to main content

Fréttir

Skrifarasmiðja og upplestur í Garðabæ

Smiðja í Garðabæ

Laugardaginn 17. september var sett upp handritasmiðja í Bókasafni Garðabæjar. Haukur Þorgeirsson, rannsóknardósent á handritasviði Árnastofnunar, fræddi gesti og gangandi um heim handritanna og verkfæri miðaldaskrifara. Um tuttugu manns sóttu smiðjuna og börn jafnt sem fullorðnir spreyttu sig á því að munda fjaðurpenna og skrifa á bókfell.

Auk smiðjunnar las rithöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir upp úr bók sinni Bál tímans: Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár. Í bókinni er handritinu Möðruvallabók fylgt frá borði skrifarans til dagsins í dag og er sagan sögð frá sjónarhóli handritsins.

Þess má geta að Bál tímans hefur verið tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.