Skip to main content

Fréttir

Skrá yfir þýðingar íslenskra miðaldabókmennta

Snorri Sturluson. Mynd/Kristín M. Jóhannsdóttir.

 

Opnaður hefur verið nýr vefur hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni sem inniheldur skrá yfir þýðingar íslenskra miðaldabókmennta frá upphafi til dagsins í dag.

Á tíunda áratug síðustu aldar tóku tveir bókasafnsfræðingar á Háskólabókasafni, Áslaug Agnarsdóttir og Ingibjörg Árnadóttir (1941–2007), að sér að taka saman skrá yfir þýðingar á íslenskum miðaldabókmenntum að beiðni Úlfars Bragasonar, sem þá var forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals. Þótt langt sé síðan vinna hófst við skrána er hún enn í vinnslu enda bætast stöðugt við nýjar þýðingar. Upphaflega átti skráin að vera sem framhald af skrám þeim sem birst höfðu í ritröðinni Islandica sem gefin er út af bókasafni Cornell-háskóla í Bandaríkjunum. Tekið var mið af skrám Halldórs Hermannssonar, Jóhanns S. Hannessonar, Marianne E. Kalinke og P.M. Mitchell sem höfðu birst í fyrrnefndri ritröð.

Enn vantar mikið efni í skrána, sérstaklega eldri þýðingar, en stöðugt er unnið að því að skrá þetta efni og bæta við það. Umsjónarmaður skrárinnar er Áslaug Agnarsdóttir.