Skip to main content

Fréttir

Skemmtisaga úr heimi handrita

 

Verkefni starfsmanna stofnunarinnar eru eins ólík og þau eru mörg. Óhætt er að segja að sum vekja meiri áhuga og kátínu hjá þjóðinni en önnur.


Á dögunum kom inn á borð stofnunarinnar skinnhandrit sem hafði fundist á heimili við tiltekt. Handritið reyndist vera skrifað með amharísku letri sem er notað í Eþíópíu. Mjög líklegt er að handritið sé á amharísku sem er ríkistunga Eþíópíu og töluð af um þriðjungi íbúanna. Amharíska er semítískt mál líkt og arabíska og hebreska. Ekki er vitað hversu gamalt handritið er, en það lítur að mörgu leyti vel út og blekið virðist hafa yfir sér unglegan blæ.

Við fyrstu sýn virtist sem handritið væri bundið í fornt íslenskt band en við nánari athugun þekkti forvörður stofnunarinnar bandið sem koptískt eða af nálægu menningarsvæði, en kristnir íbúar Egyptalands eru kallaðir Koptar. Forvörðurinn telur einnig líklegast að bókfellið sé gert úr geitarstöku.

Fréttin um handritið rataði á forsíðu Fréttablaðsins (31. október) og á heimasíðu Vísis í gær. Fréttin vakti athygli og hringdu margir á skrifstofu stofnunarinnar og bentu á hugsanlegan uppruna þess. Einnig spurðu skólabörn safnkennara stofnunarinnar spjörunum úr um handritið og söknuðu þess að það skyldi ekki vera haft til sýnis. Menn geta til gamans lesið meira um forsögu handritsins á visir.is.