Skip to main content

Fréttir

Sigurður Svavarsson minningarorð

Sigurður Svavarsson, íslenskufræðingur, útgefandi og formaður Vinafélags Árnastofnunar.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum kveður Sigurð Svavarsson útgefanda með miklum söknuði, traustan velgjörðarmann og kæran vin. Hann sýndi verkefnum stofnunarinnar sannan áhuga, hringdi þegar honum fannst vel til takast og hvatti þegar mikið lá við. Hann kom glaður til liðs við stofnunina þegar styttist í hið stóra afmælisár Árna Magnússonar árið 2013 og tók þá að sér að gefa út hina fögru bók um handritasafn Árna. Hann var með okkur af lífi og sál í því stóra verki, hugmyndaríkur, smekkvís og nákvæmur, einstaklega ljúfur í samstarfi, og lagði ríka áherslu á að bókin yrði fagur prentgripur. Hann varð síðan hvatamaður að stofnun Vinafélags stofnunarinnar og leiddi félagið fyrstu misserin. Á þeim vettvangi átti hann stóran hlut að því að koma viðgerð Flateyjarbókar aftur á skrið og að heimildarmynd yrði gerð um handritið og viðgerðina. Í vor studdi hann útgáfu stofnunarinnar og Kvæðamannafélagsins Iðunnar á Segulböndum Iðunnar. Hann var einn af þeim mönnum sem eru fullir af eldmóði fyrir íslenskri menningu í víðum skilningi án þess að berja sér á brjóst, en verkin sýna metnað hans og stórhug. Starfsfólk Árnastofnunar saknar vinar í stað og færir eiginkonu hans og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.