Skip to main content

Fréttir

Sigurðar Nordals fyrirlestur: Helga Kress

Sigurðar Nordals fyrirlestur
Norræna húsinu
14. september kl. 16

Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals hinn 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri. Fyrirlesturinn verður haldinn í Norræna húsinu. Fyrirlesari að þessu sinni verður Helga Kress prófessor emeritus með erindi sem hún nefnir Um Njálu: Leikhús líkamans.

Helga Kress.

Í fyrirlestrinum mun Helga út frá kenningum Mikhails Bakhtin o.fl. um hláturmenningu miðalda fjalla um karnivölsk einkenni í myndmáli og sviðsetningum Njálu með sérstöku tilliti til afbyggingar sögunnar á hugmyndum um karlmennsku og kynferði og endurskilgreiningar á þeirri bókmenntategund sem hún samkvæmt hefð tilheyrir.

Helga lauk kandídatsprófi í íslensku með þýsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands 1969. Hún var lektor í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands 1970–73, lektor í íslensku við Háskólann í Björgvin 1973–79, lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1980, dósent í sömu grein ári síðar og prófessor frá 1991–2009. Helga er löngu kunn af rannsóknum sínum, einkum femínískum bókmenntarannsóknum og rannsóknum í kynjafræði þar sem hún vann brautryðjandastarf. Hún hefur birt fjölda greina og bóka á fræðasviði sínu. Má þar nefna: Máttugar meyjar: Íslensk fornbókmenntasaga (1993), Fyrir dyrum fóstru: Konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum (1996), Speglanir: Konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu. Greinasafn (2000), Óþarfar unnustur og aðrar greinar um íslenskar bókmenntir (2009).

Fyrirlesturinn er í boði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Allir eru velkomnir.