Skip to main content

Fréttir

Sexföld gleði í boði Þjóðhátíðarsjóðs

Þjóðhátíðarsjóður hefur úthlutað styrkjum fyrir árið 2010. Sex verkefni á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fengu styrk að þessu sinni:

Stafræn skráning handrita í vörslu stofnunarinnar. Verið er að byggja upp gagnagrunn með lýsingum á þeim tæplega 2600 handritum og handritabrotum sem varðveitt eru í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík og stafrænum myndum af þeim. Verkefnisstjóri er Sigurgeir Steingrímsson á handritasviði. Styrkurinn er að upphæð 1.000.000. Lesa um verkefnið.

Bragi – óðfræðivefur, til að þróa áfram 'bragarháttaeiningu' og 'lagaeiningu' á vefnum. Verkinu stjórnar Kristján Eiríksson á handritasviði. Styrkurinn er að upphæð einni milljón króna.

Skrá efni í tölvu með orðum úr kveðskaparmáli og leggja út á vefinn. Stjórn verksins er í höndum Guðrúnar Kvaran og Gunnlaugs Ingólfssonar á orðfræðisviði. Styrkurinn hljóðar upp á 700.000.

Prentun handbókar um málnotkun sem er ætluð þeim sem vinna við ritun eða yfirlestur texta, t.d. í menntastofnunum, fjölmiðlum eða opinberum stofnunum. Stjórn verksins er í höndum Jóhannesar Bjarna Sigtryggssonar á málræktarsviði. Styrkurinn er að upphæð 600.000.

"Íslenskt mál á 19. öld", safna einkabréfum frá 19. öld og slá þau inn. Markmiðið með því er að byggja upp textasafn til málrannsókna. Verkefnisstjóri er Haraldur Bernharðsson á handritasviði. Styrkurinn er að upphæð 500.000.

Ný útgáfa á rafrænum íðorðabanka. Verkið er í höndum Ágústu Þorbergsdóttur á málræktarsviði. Styrkurinn er að fjárhæð 500.000 kr.