Skip to main content

Fréttir

Sendikennarar í íslensku heimsækja Manitoba

Árlegur fundur sendikennara í íslensku var haldinn að þessu sinni í Winnipeg, Manitoba dagana 31. júlí til 1. ágúst. Fundurinn var með sérstöku sniði í þetta sinn þar sem hann bar upp á um svipað leyti og Íslendingahátíðin er í Gimli og var því lengri en venja er. Var mjög vel tekið á móti hópnum og gafst kennurum einstakt færi á að heimsækja slóðir Íslendinga í Vesturheimi og taka þátt í hátíðahöldunum.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, var heiðursgestur hátíðarinnar en gaf sér tíma til að funda með sendikennurum og kynna nýja þingsályktunartillögu um íslensku sem þjóðtungu Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Í ályktuninni er sérstök grein um styrkingu íslenskukennslu erlendis. Sendikennarar og aðrir starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fóru bjartsýnir af fundi.

Einnig má sjá frétt af vef Stjórnarráðsins hér.