Skip to main content

Fréttir

Sendiherra Kanada í heimsókn

fjórar manneskjur standa saman
Guðrún Nordal, Branislav Bédi og Katelin Marit Parsons tóku á móti Jenny Hill sendiherra Kanada.
SSJ

Miðvikudaginn 2. apríl kom nýr sendiherra Kanada á Íslandi, Jenny Hill, í heimsókn á Árnastofnun. Tilefnið var 150 ára afmæli Nýja-Íslands í Kanada og kanadískt-íslenskt menningarsamstarf.


Guðrún Nordal forstöðumaður, Branislav Bédi verkefnisstjóri, og Katelin Marit Parsons, ritstjóri gagnagrunnsins Handrit íslenskra vesturfara, tóku á móti sendiherranum og fræddu hann um starfsemi stofnunarinnar auk verkefna sem snúa að sameiginlegum menningararfi Kanada og Íslands og eflingu íslenskukennslu í Kanada.


Frá árinu 2015 hefur Árnastofnun staðið fyrir söfnunar- og skráningarátakinu Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi en undir lok 19. aldar fluttu þúsundir Íslendinga til Kanada. Markmið verkefnisins Í fótspor Árna Magnússonar er að afrita og skrá íslensk handrit, bréf og bækur sem finnast enn í Vesturheimi. Afraksturinn af verkefninu er hægt að skoða á vefsíðunni Handrit íslenskra vesturfara.