Skip to main content

Fréttir

Sendiherra Íslands í Þýskalandi opnar „Handritin heima“ á þýsku

Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra Íslands í Þýskalandi

Þann 23. júní sl. var fyrri hluti þýskrar þýðingar fræðsluvefsins Handritin heima opnaður við hátíðlega athöfn við norrænudeild Christan-Albrechts háskóla í Kíl að viðstöddum Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra Íslands í Þýskalandi. Í máli Klaus Böldl, prófessors í miðaldafræðum við deildina, kom fram að mikill fengur væri að slíkum vef fyrir nemendur í norrænum fræðum við þýska háskóla og að hann gæti stutt við væntanlega útgáfu Íslendingasagna á þýsku sem unnið er að fyrir bókasýninguna í Frankfurt 2011. Þannig nýttist vefurinn einnig áhugasömum almenningi. Laufey Guðnadóttir, lektor í íslensku við norrænudeildina og annar höfunda fræðsluefnisins, kynnti vefsíðuna stuttlega og gaf gestum innsýn í fjölbreytilegt efni hennar, safn mynda, sem og hvernig mætti læra að lesa handrit. Sendiherrann benti á að smáþjóð eins og Íslendingar, væri ætíð í leit að sjálfsmynd og handritin væru vissulega stór hluti hennar, ekki síst í ljósi viðurkenningar á mikilvægi þeirra utan Íslands sem fékkst þegar handritin öðluðust sess á heimsminjaskrá UNESCO á síðasta ári. Handritin verði enda í sviðsljósinu í Frankfurt 2011 og verði það í fyrsta skipti sem heiðursland setji fornbókmenntir í öndvegi. Gunnar Snorri fagnaði því að þýsk þýðing vefsíðunnar hefði verið unnin við háskóla í Slesvík-Holtsetalandi þar sem Ísland, í samstarfi við stjórnvöld þar, væru að vinna að því að fá víkingaminjar í Heiðabæ og Danavirki settar á heimsminjaskrá. Sendiherrann opnaði þýsku útgáfuna formlega og að lokum söng norræni kórinn, sem einkum er skipaður núverandi og fyrrum stúdentum við deildina, lögin MaístjarnanKvæðið um fuglana og Á Sprengisandi.

Þýðing vefsins var unnin af tveimur stúdentum við skólann, þeim Michael Schäfer og Söruh Strüning, undir umsjón Klaus Böldl og Laufeyjar Guðnadóttur og greiddi norrænudeildin fyrir verkið. Verkefnið „Sögueyjan Ísland“, þátttaka Íslands á bókasýningunni í Frankfurt 2011, greiddi fyrir uppsetningu vefsins á þýsku.

Vefsíðan, Handritin heima, er fræðsluefni á vef um íslensk handrit og menningarsögu sem verið hefur í smíðum um nokkurt skeið. Höfundar eru Laufey Guðnadóttir og Soffía Guðný Guðmundsdóttir en verkið hefur verið unnið í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Námsgagnastofnun og Hugrúnu Hrönn Kristjánsdóttur vefráðgjafa. Fyrsti hluti vefsins, Handritið, var opnaður um leið og ný handritasýning Árnastofnunar í Þjóðmenningarhúsinu þann 5. okt. 2002 og endurbætt útgáfa hans þremur árum síðar. Kennsluefnið var svo gefið út í samstarfi við Námsgagnastofnun haustið 2006. Seinni hluti vefsins, Sagan, er í vinnslu en nýlega fengust 200.000 DKK að styrk úr Norræna menningarsjóðnum til þess verks og til þýðingar á norræn mál í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Árnasafn í Kaupmannahöfn og norrænudeildirnar við háskólana í Gautaborg og Uppsölum. Norrænudeild Christian-Albrechts háskóla hyggst jafnframt fá nemendur til að þýða seinni hlutann á þýsku í fyllingu tímans.