Skip to main content

Fréttir

Segulbönd Iðunnar

t  eru komin 160 kvæðalög úr safni Kvæðamannafélagsins Iðunnar, á bók og fjórum geisladiskum. Segja má að útgáfan sé framhald af Silfurplötum Iðunnar sem gefnar voru út í tilefni af 75 ára afmæli félagsins árið 2004. Þar voru gefin út 200 kvæðalög úr hljóðritasafni félagsins sem teknar voru upp á lakkplötur á árunum 1935 og 1936. Hér birtast nú rímnalög sem eiga það sameiginlegt að hafa verið hljóðrituð á segulbönd eftir að sú tækni kom til sögunnar hér á landi, eða á árunum í kringum 1960. Með hverju lagi eru prentaðar nótur og vísur og hefur Steindór Andersen leitað uppi vísur og kvæði og höfunda þeirra. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur tekið saman yfirlit yfir bragarhætti rímna og skrár yfir bragarhætti eru prentaðar aftan við stemmurnar til þess að auðvelda fólki að finna stemmur við ákveðna bragarhætti. Í bókinni eru einnig greinar sem tengjast efninu, eftir Njál Sigurðsson um sögu Iðunnar á segulbandatímanum, eftir Guðmund Stein Gunnarsson um það að skrifa nótur við kvæðalög og þá lýsir Guðríður B. Helgadóttir reynslu sinni af því að alast upp í lifandi kveðskaparhefð. Hún fjallar einnig um það hvernig kvæðalögin færast á milli kynslóða og hvernig hver kvæðamaður eða -kona gerir þau að sínum. Ritstjórinn, Rósa Þorsteinsdóttir, og Bára Grímsdóttir, formaður Iðunnar, rita inngang. Með þessari útgáfu er framhaldið því stefnumiði Iðunnar að kynna kveðskaparhefðina og er fólk hvatt til að nýta sér útgáfuna til þess að læra kvæðalög og æfa sig að kveða.