Skip to main content

Fréttir

Samstarfsverkefni um nýja tækni við að kenna erlendum málhöfum þjóðtungur

Iceland Liechtenstein Norway Grants ásamt merki. Skjaldarmerki Slóvakíu til hliðar.

Samstarfsverkefni um nýja tækni við að kenna erlendum málhöfum þjóðtungur hefur verið hrundið af stað. Nokkrir aðilar og stofnanir taka þátt í verkefninu, t.a.m. sérfræðingar og kennarar frá Konstantínháskóla í Nitra í Slóvakíu, Árnastofnun, námsgrein í hagnýtri íslensku við Háskóla Íslands og Vigdísarstofnun. Verkefnið snýr aðallega að kennslu fyrir erlenda námsmenn eins og skiptinema og innflytjendur og nær yfir bæði staðkennslu og fjarnám. Það er stutt af uppbyggingarsjóði EES og er lögð áhersla á miðlun þekkingar á sviði annarsmálsfræða og notkun tækni í kennslu. 

Árnastofnun hefur skipulagt alþjóðleg sumarnámskeið í nánast 30 ár í samvinnu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Námskeiðin voru áður í höndum Stofnunar Sigurðar Nordals sem sameinaðist Árnastofnun árið 2006. Í dag eru þessi námskeið mikilvægur undirbúningur fyrir lengra nám í íslensku máli og menningu við háskóla víða um heim. Þau eru einnig gagnleg fyrir fræðimenn í norrænum fræðum og ekki síst kjörin kynning á íslenskri tungu og menningu hvarvetna.

Sem hluti af þessu verkefni verða í boði stutt námskeið í íslensku sem erlendu máli við Konstantínháskóla í Slóvakíu og námskeið í slóvakísku sem erlendu máli við Háskóla Íslands. Að þessu sinni er haldið þriggja daga hraðnámskeið í slóvakísku 23.–25. október kl. 13.20–14.50 í Veröld – húsi Vigdísar. Kennari er dr. Lenka Štvrtecká frá Konstantínháskóla í Nitra í Slóvakíu. Námskeiðið er öllum opið og án endurgjalds. Nánari upplýsingar um námskeiðið má nálgast á vef Vigdísarstofnunar.