Undirrituð hefur verið skipulagsskrá Stofnunar Gunnars Gunnarssonar, sem sjálfseignarstofnun með stofnaðild menntamálaráðuneytis, Háskóla Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Rithöfundasambands Íslands og Þróunarfélags Austurlands. Vésteinn Ólason forstöðumaður undirritaði samninginn fyrir hönd Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Samkvæmt skipulagsskránni er hlutverk stofnunarinnar:
1. Að annast uppbyggingu og rekstur menningar- og fræðaseturs að Skriðuklaustri í Fljótsdal.
2. Að stunda fræðastarfsemi á sviði hugvísinda og leggja rækt við bókmenntir með áherslu á ritverk og ævi Gunnars Gunnarssonar.
3. Að reka dvalarstað fyrir lista- og fræðimenn og standa fyrir sýningum og öðrum listviðburðum.
4. Að stuðla að atvinnuþróun á Austurlandi og efla rannsóknir á austfirskum fræðum.
5. Að sinna alþjóðlegum menningartengslum og standa vörð um hugsjónir Gunnars Gunnarssonar.