Skip to main content

Fréttir

Samstarf Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum


Háskóli Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafa undirritað samning um samstarf til næstu fimm ára. Markmið samstarfsins er að efla rannsóknir og kynningu á íslenskum fræðum hérlendis og í alþjóðlegu fræðasamfélagi, styrkja menntun stúdenta í greinum sem fást við íslensk fræði og síðast en ekki síst að tryggja gæði rannsókna í íslenskum fræðum og skyldum greinum.

Sérstök áhersla er lögð á eflingu rannsóknasamstarfs en á grundvelli stefnumörkunar um vísindastarf munu aðilar móta sameiginlegar áherslur um rannsóknaverkefni er tengjast báðum stofnunum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum mun veita starfsmönnum og stúdentum Háskólans aðgang að rannsóknaefnivið og aðstöðu til rannsókna eftir því sem föng eru á, og á sama hátt veita deildir og stofnanir Háskólans starfsmönnum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum aðgang að rannsóknaefnivið og aðstöðu til rannsókna. Þá er einnig gert ráð fyrir að starfsmenn stofnunarinnar taki að sér kennslu og leiðbeiningu stúdenta við Háskólann.
 

Ýmis ákvæði eru í samningnum um samstarf í starfsmannamálum, samhliða stöður og samræmi í reglum um ráðningu fræðimanna og kennara. Forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á sæti á háskólafundi, og starfsmenn stofnunarinnar hafa kosningarétt í rektorskjöri.

Samningurinn er eitt af stefnumálum Háskóla Íslands, þar sem kveðið er á um að deildir Háskóla Íslands, einkum hugvísindadeild eigi náið samstarf við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þannig verði eðlilegt samstarf stofnunarinnar og Háskólans tryggt með tilliti til kennslu og rannsókna.

Samkvæmt lögum um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er stofnunin „háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menntamálaráðherra“ en hefur „náin tengsl við Háskóla Íslands ... og er hluti af fræðasamfélagi hans“, sem birtist meðal annars í því að háskólaráð Háskóla Íslands tilnefnir þrjá af fimm fulltrúum í stjórn stofnunarinnar. Þá kveða lögin einnig á um að gerður skuli samstarfssamningur við Háskóla Íslands um starfstengsl, fjárhagsleg samskipti og skipan sameiginlegra starfa.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum byggir á lögum sem samþykkt voru árið 2006, en með þeim voru sameinaðar 5 stofnanir á fræðasviðinu. Tvær þeirra – Íslensk málstöð og Örnefnastofnun Íslands voru sjálfstæðar stofnanir sem heyrðu undir menntamálaráðuneytið, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi var háskólastofnun, en stjórnunarlega tengd Háskóla Íslands með þeim hætti að rektor var sjálfkjörinn stjórnarformaður. Loks heyrðu tvær stofnananna - Orðabók Háskólans og Stofnun Sigurðar Nordals - undir háskólaráð Háskóla Íslands.

Samstarfssamningur um undirritunina var undirritaður af Kristínu Ingólfsdóttur rektor Háskóla Íslands og Vésteini Ólasyni forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þriðjudaginn 20. mars kl. 14 í fundarstofu háskólaráðs Háskóla Íslands.