Sænska ríkisstjórnin hefur ákveðið að styrkja Háskólann í Gautaborg um 500.000 sænskar krónur (8,7 milljónir ÍKR) vegna samningar íslensk-sænskrar orðabókar. Bókin er gerð i samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og er hluti af svokölluðu ISLEX orðabókaverki. Innan ISLEX er einnig verið að þýða íslensk orð yfir á norsku og dönsku en bókin á að nýtast öllum þeim sem þurfa á íslensk-norrænum orðabókum að halda. Sérstök áhersla er lögð á að sinna þörfum sænskra, norskra og danskra notenda, ekki síst þýðenda úr íslensku á skandinavísku málin. Orðabókin er fyrst og fremst ætluð til birtingar á vefnum. Það form býður upp á nýjar aðferðir við framsetningu efnisins, má þar nefna hljóðdæmi, myndskýringar og hreyfimyndir. Stefnt er að því að ljúka gerð orðabókarinnar árið 2011.