Skip to main content

Fréttir

Rómverja saga

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur sent frá sér Rómverja sögu í nýrri útgáfu Þorbjargar Helgadóttur.

Rómverja saga er sett saman úr þýðingum þriggja latínurita, Bellum Jugurthinum og Conjuratio Catilinae eftir Sallústíus og Pharsalia eftir Lúkanus. Latínutextarnir voru að líkindum þýddir í áföngum, fyrst Bellum Jugurthinum upp úr miðri tólftu öld og hin ritin tvö skömmu síðar. Undir lok aldarinnar var þessum þýðingum svo steypt saman í eina sögu af Rómverjum, hugsanlega í klaustrinu á Þingeyrum. Sagan hefur varðveist í tveimur gerðum, eldri gerð sem stendur nærri upprunalegum texta verksins og yngri gerð sem geymir styttan og breyttan texta. Eldri gerðina er að finna í einu skinnhandriti frá fjórtándu öld en sú yngri er varðveitt, að hluta eða í heild, í sex handritum og handritsbrotum sem skrifuð voru á fjórtándu til sextándu öld.

Í þessari nýju útgáfu eru báðar gerðir sögunnar prentaðar ásamt samsvarandi latínutexta. Í inngangi er gerð nákvæm grein fyrir handritum, fjallað ítarlega um þýðingarnar og þá latnesku texta sem liggja þeim til grundvallar, auk þess sem dregin eru fram einkenni beggja gerða íslenska textans.

Þorbjörg Helgadóttir annaðist útgáfuna en hún er ritstjóri við Norrænu fornmálsorðabókina (Ordbog over det norrøne prosasprog) í Kaupmannahöfn. Af hálfu SÁ hafði Svanhildur Óskarsdóttir umsjón með verkinu.

 

Ritið er í tveimur bindum, ccxx + 413 bls
ISBN 978-9979-654-11-7
Verð: 4.900.