Skip to main content

Fréttir

Ritgerðir til heiðurs Vésteini Ólasyni sjötugum


Vésteinn Ólason prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verður sjötugur 14. febrúar 2009. Af því tilefni mun Hið íslenska bókmenntafélag gefa út afmælisrit honum til heiðurs með ritgerðum um íslenskar bókmenntir að fornu og nýju eftir valinkunna innlenda og erlenda fræðimenn. Bókin verður að öllum líkindum um 450 bls. Ritnefnd skipa: Árni Sigurjónsson bókmenntafræðingur, Guðrún Ása Grímsdóttir rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Guðrún Nordal prófessor við Háskóla Íslands, Guðvarður Már Gunnlaugsson rannsóknardósent og Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor, bæði á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Áhugasömum býðst að gerast áskrifendur að afmælisritinu og fá nafn sitt birt fremst í ritinu á heillaóskaskrá, tabula gratulatoria, til 19. janúar.

Vésteinn Ólason er þekktur hér á landi sem erlendis fyrir rit sín um íslensk fræði. Doktorsritgerð hans Traditional Ballads of Iceland. Historical Studies kom út árið 1982 og fjallar um sagnadansa. Þá var hann ritstjóri og meðhöfundur Íslenskrar bókmenntasögu I–II sem út kom 1992–1993. Bók hans Samræður við söguöld. Frásagnarlist Íslendingasagna og fortíðarmynd kom út árið 1998 og sama ár í enskri gerð: Dialogues with the Viking Age. Narration and Representation in the Sagas of the Icelanders í þýðingu Andrew Wawn. Loks má nefna greinasafnið Ég tek það gilt. Greinar um íslenskar bókmenntir á 20. öld (2008).

Vésteinn varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni. Hann lauk mag. art. prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1968 og hlaut dr. phil. gráðu frá Háskóla Íslands árið 1982. Hann var styrkþegi Handritastofnunar Íslands á árunum 1964–65 og 1967–68 og lektor í íslensku við Kaupmannahafnarháskóla á árunum 1968–1972, þá lektor og síðar dósent í almennri bókmenntasögu og bókmenntafræði við heimspekideild Háskóla Íslands 1972–1980 og dósent í íslenskum bókmenntum við sama skóla á árunum 1980–1985. Hann var prófessor í íslensku við Óslóarháskóla 1985–1991 og gistiprófessor við Kaliforníuháskóla í Berkeley 1988–1989. Þá var Vésteinn prófessor í íslenskum bókmenntum við heimspekideild Háskóla Íslands 1991–1999 og hefur verið forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá 1. maí 1999. Hann hefur að auki gegnt mörgum trúnaðarstörfum á ferli sínum. Í rannsóknum sínum hefur Vésteinn einkum fengist við íslenskar fornbókmenntir, þjóðfræði og nútímabókmenntir.

Titill afmælisritsins, Greppaminni, vísar til greinar sem Vésteinn samdi þrítugur að aldri, þá lektor við Kaupmannahafnarháskóla og birti í afmælisriti til heiðurs Jóni Helgasyni prófessor í Kaupmannahöfn. Greinin ber höfundi sínum fagurt vitni og einkennist af skýrri framsetningu og traustum ályktunum. Þar dregur Vésteinn fram stílfræðileg einkenni bragarháttar sem nefnist greppaminni og telur hann hæfa vel til spurningaleiks um hin fornu minni skáldanna.