Skip to main content

Fréttir

Risaráðstefna um máltækni á Íslandi vorið 2014

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús.

 

Um mánaðamótin tilkynnti ELRA, European Language Resources Association, að næsta LREC-ráðstefna (sú 9.) yrði haldin á Íslandi 26. maí – 1. júní 2014. LREC (Language Resources and Evaluation Conference) er haldin annað hvert ár. Þetta er stærsta máltækniráðstefna heims – undanfarið hafa þátttakendur verið um og yfir 1200.

Ráðstefnan verður haldin í Hörpu og leggur undir sig allt húsið – átta vinnustofur eru að jafnaði í gangi í einu. Aðalráðstefnan stendur í þrjá daga, frá miðvikudegi til föstudags, en tvo daga á undan aðalráðstefnunni og tvo daga á eftir eru vinnustofur og örnámskeið um margvísleg sérhæfð efni.

Markmið með því að halda ráðstefnuna er að gefa yfirlit yfir stöðu þekkingar á sviði máltækni, kanna nýja strauma í rannsóknum og þróun, skiptast á upplýsingum um málföng og notkun þeirra, skoða nýjar aðferðir við mat á aðferðum og máltólum og notkun máltækni í atvinnulífinu og þarfir þess fyrir máltækni.

Það er mikill viðburður að fá LREC-ráðstefnuna til Íslands. Í þau átta skipti sem ráðstefnan hefur verið haldin hefur hún alltaf verið í Suður-Evrópu eða Norður-Afríku (Granada, Aþenu, Las Palmas, Lissabon, Genúa, Marrakech, Valetta og Istanbúl) en kemur nú í fyrsta skipti til Norður-Evrópu. Ráðstefnan verður án efa mikil lyftistöng fyrir íslenska máltækni og íslenskar málrannsóknir og skapar mörg tækifæri fyrir stúdenta og fræðimenn. Samstarfsaðilar ELRA um ráðstefnuhaldið eru Máltæknisetur  (samstarfsvettvangur Málvísindastofnunar HÍtölvunarfræðideildar HR og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum) og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Nánari upplýsingar um LREC-ráðstefnurnar má finna á ráðstefnusíðu ELRA.