Skip to main content

Fréttir

Rímnakveðskapur tíu kvæðamanna: Rannsókn á tilbrigðum

Þann 28. apríl kom út hjá Árnastofnun bók sem segir frá söfnun og rannsókn danska þjóðlagafræðingsins Svend Nielsens á kveðskap tíu kvæðamanna. Svend lýsir því í bókinni hvernig hann, Hallfreður Örn Eiríksson og Thorkild Knudsen leituðu víða um land að kvæðamönnum sem hefðu alist upp við kveðskap, kveðið sem ungir menn og gætu enn þá kveðið langa kafla úr rímum. Sem betur fer bar leitin árangur og nú, meira en 50 árum seinna, birtist greining á kveðskap tíu þeirra sem hljóðritaðir voru á árunum 1964–1971.

Svend kom fyrst hingað til lands árið 1964 vegna þess að, eins og hann segir sjálfur: „hafði fengið það verkefni á Danska þjóðfræðisafninu (d. Dansk folkemindesamling) að athuga hvað hægt væri að finna af þjóðlagatónlist á Íslandi og einnig hvort þar væri einhver að safna og rannsaka íslenska þjóðlagatónlist. Á safninu hafði starfsfólkið góða hugmynd um hvaða þjóðlagatónlist hafði verið safnað í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og á Færeyjum og hvernig áframhaldandi söfnum og rannsóknir fóru þar fram en Ísland var eins og ókannað land á landakortinu.“ Kveikjan að söfnuninni og rannsókninni voru ummæli sem séra Bjarni Þorsteinsson viðhafði í inngangi að rímnalögunum sem hann birtir í bók sinni Íslenzk þjóðlög sem út kom 1906–1909.

Bókin er gefin út sem rafbók þannig að hægt er að hlusta á dæmin sem Svend tekur en hann skrifar líka útlínur þeirra upp á nótur. Rósa Þorsteinsdóttir þýddi og ritstýrði og ritar inngang þar sem settar eru fram skilgreiningar á rímum, bragarháttum, skáldamáli og rímnalögum og bent á frekari heimildir auk þess sem rannsókn Svend Nielsens er sett í samhengi við aðrar skandinavískar rannsóknir á munnlegum flutningi kvæða.