Við úthlutun úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur hlaut verkefnið Réttritunarheftið styrk. Fyrir verkefninu stendur Jóhannes B. Sigtryggsson, rannsóknardósent við Árnastofnun.
Í heftinu verður lýst meginatriðum opinberrar stafsetningar og greinarmerkjasetningar en sumt í henni er nokkuð á reiki í almennri ritun. Þetta stutta hefti er sérstaklega ætlað nemendum í framhaldsskólum og háskólum. Fjallað verður um mikilvægustu og hagnýtustu atriðin í íslenskri stafsetningu og greinarmerkjasetningu og enn fremur breytingar tengdar aukinni ritun fólks, meðal annars á samfélagsmiðlum og áhrif ensku á stafsetningu. Áhersla verður lögð á að heftið verði hagnýtt og einfalt í notkun, ritað á skýru og einföldu máli og nýtist sem flestum. Í tengslum við verkefnið verða samdar kennsluleiðbeiningar fyrir kennara um notkun þess.