Skip to main content

Fréttir

Rektor Bejing-háskóla heimsækir Árnastofnun

Frá heimsókn rektors Beijing-háskóla í september. Photo: Beijing Foreign Studies University.

 

Fyrir skömmu heimsótti Peng Long, rektor Bejing-háskóla, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt fylgdarliði. Guðrún Nordal forstöðumaður og Úlfar Bragason, stofustjóri alþjóðasviðs, tóku á móti hópnum í málstofunni í Árnagarði 21. september. Þau fræddu gestina á sögu stofnunarinnar og ræddu hugmyndir að mögulegu samstarfi um rannsóknir á fræðasviðum sem undir hana heyra. 

Íslenska ríkið styrkir íslenskukennslu við Beijing-háskóla og sér alþjóðasvið um umsýslu og samskipta í tengslum við þá samninga. Auk íslensku eru öll fimm Norðurlandamálin kennd við háskólann og hefur starfsfólk skólans áhuga á að renna enn styrkari stoðum undir gagnkvæmt samstarf.

Fundinn sátu einnig Shuhui Wang, fyrrum styrkþegi og nú íslenskukennari við Beijing-háskóla, sem túlkaði það sem fram fór á fundinum og Xinyu Zhang, styrkþegi á lokaári í BA námi í íslensku sem öðru máli sem hefur nýlokið við að þýða skáldsögu Einars Más Jónssonar, Hundadaga, á kínversku.

Fjallað var um Íslands- og Finnlandsheimsókn rektorsins á heimasíðu háskólans þaðan sem meðfylgjandi ljósmynd er fengin.