Við handritasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er laust til umsóknar starf rannsóknarlektors með 40% rannsóknarskyldu. Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi á rannsóknarsviði stofnunarinnar og geta með námsferli sínum, starfsreynslu og ritverkum sýnt fram á kunnáttu í handritafræðum, hæfni til að vinna með texta og/eða annað efni í íslenskum handritum, og þekkingu á nýlegri þróun og möguleikum stafrænnar vinnslu og miðlunar. Góð kunnátta í íslensku máli að fornu og nýju er skilyrði, og menntun og/eða reynsla á sviði miðalda æskileg. Gerð er krafa um góða samskiptahæfni.
Rannsóknarlektorinn mun m.a. bera ábyrgð á þátttöku sviðsins í verkefnum sem tengjast stafrænni miðlun.
Áætlað er að ráða í starfið frá og með 1. ágúst 2014, til þriggja ára með möguleika á áframhaldandi ráðningu.
Um hæfi umsækjenda og meðferð umsókna er farið eftir ákvæðum laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum nr. 40/2006 og reglugerðar um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum nr. 861/2008.
Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf sem þeir hafa unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og vottorð um námsferil sinn og störf. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur standa að ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Einnig er nauðsynlegt að í umsókn komi fram hvaða verkefnum umsækjendur hafa unnið að, hverju þeir vinna að núna og hver séu áform þeirra um rannsóknarverkefni ef af ráðningu yrði. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja símanúmer og nöfn tveggja einstaklinga sem eru til þess bærir að veita umsagnir um verk þeirra og hæfni.
Laun eru skv. kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra.
Umsóknarfrestur er til 15. febrúar og skal umsóknum og fylgigögnum skilað í þríriti til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Árnagarði við Suðurgötu, 101 Reykjavík eða á rafrænu formi á netfangið kari@hi.is. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Margrét Eggertsdóttir starfandi stofustjóri handritasviðs (sími: 525 4014; megg@hi.is).