Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Rannsóknarstofa í máltileinkun gangast fyrir ráðstefnu um rannsóknir á sviði annarsmálsfræða, tvítyngis, tileinkunar máls og menningar og kennslu í íslensku sem öðru og erlendu máli í Norræna húsinu 29. maí 2015. Ráðstefnan er haldin í tengslum við ársfund íslenskukennara við erlenda háskóla dagana 29.–30. maí.
Rannsóknarstofa í máltileinkun (RÍM) er starfrækt við Háskóla Íslands og heyrir undir Hugvísindasvið. Hún byggist á samstarfi Málvísindastofnunar, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Tungumálamiðstöðvar HÍ og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og starfar innan vébanda Hugvísindastofnunar.
Í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar sitja: Úlfar Bragason rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum; Helga Hilmisdóttir lektor, Helsinkiháskóla og Eyjólfur Már Sigurðsson forstöðumaður, Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands.
Á ráðstefnunni verður megináherslan lögð á að ræða:
- Málvísindalegar rannsóknir á máltileinkun.
- Kennslufræði íslensku sem annars og erlends máls.
- Markhópar og markmið kennslunnar.
- Menningarmiðlun og samræðu milli menningarheima.
- Námsmat, m.a. stöðluð próf
Ráðstefnan fer fram á íslensku, hún er þverfagleg og opin öllum. Hug- og félagsvísindafólk er sérstaklega hvatt til þátttöku og einnig
doktorsnemar á sviðum annarsmálsfræða og menningartileinkunar.
Hér með er óskað eftir tillögum að fyrirlestrum. Heiti fyrirlestrar og útdráttur á íslensku (150-200 orð) óskast sent til Úlfars Bragasonar (ulfarb@hi.is) fyrir 20. mars. Tilkynnt verður um samþykki eða höfnun erindis fyrir miðjan apríl. Stefnt er að því að birta erindin.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Rannsóknarstofa í máltileinkun