Skip to main content

Fréttir

Ráðstefnan EUROCALL 2023 fór vel fram

Horft af efri hæð meðfram stiga á fólk sem stendur í hóp á jarðhæð.
EUROCALL 2023
Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir

Alþjóðlega ráðstefnan EUROCALL 2023 (European Association for Computer Assisted Language Learning) var haldin í Veröld – húsi Vigdísar 15.–18. ágúst síðastliðinn. Á annað hundrað sérfræðinga tók þátt í ráðstefnunni sem haldin er árlega að tilhlutan samtakanna til að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar á sviði hagnýtra málvísinda, stafrænnar kennslufræði, stafræns læsis og tölvustuddra samskipta.

Meginþema ráðstefnunnar í ár snerist um tungumál án aðgreiningar og var framlag til Alþjóðlegs áratugar frumbyggja tungumála 2022–2032. Í tengslum við ráðstefnuna var boðið upp á leiðsögn um sýninguna Mál í mótun sem er gagnvirk sýning um tungumál heimsins, auk þess sem gestum gafst kostur á að prófa tungumálanámskeiðin Icelandic Online og Icelandic Online – Börn.

Aðalræðumenn ráðstefnunnar voru Júlía Guðný Hreinsdóttir, fagstjóri táknmálskennslu hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Neasa Ní Chiaráin Ussher, dósent við Trinity College í Dublin, Róbert Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúa ses, og Trond Trosterud, prófessor við UiT-háskólann í Noregi.

Branislav Bédi, verkefnisstjóri á alþjóðasviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, var aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar sem er samstarfsverkefni Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóla Íslands. Fleiri myndir frá ráðstefnunni má sjá á vef Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

EUROCALL 2024 verður haldin  að ári í Trnava í Slóvakíu.