Skip to main content

Fréttir

Ráðstefna: Íslenska sem annað mál


Föstudaginn 10. febrúar nk. stendur námsgreinin Íslenska sem annað mál á Hugvísindasviði Háskóla Íslands fyrir ráðstefnunni „Íslenska sem annað líf“ þar sem átta fyrrum nemendur líta yfir farinn veg og ræða um reynslu sína og verkefni, ýmist innan og utan háskólans.

Fyrirlesarar eru Aleksandra M. Cieślińska, Cynthia Trililani, Ingrid Kuhlman, Irma Matsjavariani, Karen Ralston, Pétur Knútsson, Róland R. Assier og Stoyanka Tanja G. Tzoneva. 

Aleksandra, Ingrid, Irma, Róland og Stoyanka hlutu styrki menntamálaráðuneytisins til að læra íslensku við Háskóla Íslands. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur umsjón með styrkjunum.

Árlega stunda yfir tvö hundruð nemendur víðsvegar að úr heiminum nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Hluti þeirra ílendist hér að loknu námi, aðrir halda aftur utan en í báðum tilvikum er algengt að námsárin hafi margháttuð áhrif á framtíð nemenda; íslenskan verður þeirra annað líf. Í hópi útskrifaðra nemenda eru t.d. margir af fremstu þýðendum íslenskra bókmennta á erlendar tungur en einnig fólk sem hefur haslað sér völl víða í íslensku samfélagi.  En hvað felst í því að læra íslensku á fullorðinsárum, hvaða áskoranir mæta nemendum og hvaða tækifæri og hindranir bíða þeirra að námi loknu?

Ráðstefnan fer fram í stofu 101 í Lögbergi frá kl. 13.00-16.15 og er aðgangur ókeypis og öllum opinn.

Nánar á heimasíðu Háskóla Íslands.