Hinn 5. jan. 2007 voru auglýstar tvær rannsóknarstöður við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og skyldu þær veittar til eins, tveggja eða þriggja ára. Stöðurnar verða tengdar nöfnum Árna Magnússonar og Sigurðar Nordals, sbr. 7. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 26 umsóknir bárust um stöðurnar.
Í stöðu Árna Magnússonar verður fyrst ráðinn Ármann Jakobsson í eitt ár og síðan Haraldur Bernharðsson til tveggja ára. Ármann Jakobsson mun einkum vinna við útgáfu Morkinskinnu fyrir Hið íslenzka fornritafélag, en hann vinnur jafnframt að rannsóknum á hugmyndaheimi fornsagna. Haraldur vinnur við rannsóknir á íslenskri málssögu, í fyrstu einkum málssögu 14. aldar.
Í stöðu Sigurðar Nordals verður fyrst ráðinn Daniel Sävborg í eitt ár, þá Elizabeth Ashman Rowe í eitt ár og síðast Aðalheiður Guðmundsdóttir í eitt ár. Daniel Sävborg er sænskur og hefur skrifað bækur og ritgerðir um eddukvæði og Íslendingasögur. Hann hyggst vinna að rannsóknum á ungum Íslendingasögum. Elizabeth Ashman Rowe er Bandaríkjamaður og hefur birt bók um Flateyjarbók og greinar m.a. um fornaldarsögur, en hún hyggst vinna að rannsókn og þýðingu á íslenskum miðaldaannálum. Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur rannsakað þjóðsögur og ævintýri auk fornbókmennta og gefið út fornaldarsögu, rímur og riddaraævintýri. Hún hyggst vinna að rannsóknum á fornaldarsögum Norðurlanda.
Allir þessir umsækjendur uppfylla þær kröfur sem settar voru fram í auglýsingu um stöðurnar. Þau hafa öll lokið doktorsprófi, verið mjög virk á rannsóknarsviði sínu á undanförnum árum og birt niðurstöður í bókum og virtum alþjóðlegum ritum. Rannsóknir þeirra, hvers um sig, eru fjölbreyttar og hafa tengst mjög vel fræðasviðum stofnunarinnar. Þau verkefni sem þau hyggjast vinna að eru áhugaverð og að auki mikilvæg viðbót við það fræðastarf sem þegar er unnið á stofnuninni.
Fréttir
Ráðið hefur verið í rannsóknarstöður Árna Magnússonar og Sigurðar Nordals
13. mars 2007