Út er komin bókin The Prosimetrum of the Íslendingasögur: Aesthetic and Narrative Effects, í ritstjórn Brynju Þorgeirsdóttur, Háskóla Íslands; Stefanie Gropper, háskólanum í Tübingen; Judy Quinn, háskólanum í Cambridge, og Alexander Wilson, háskólanum í Leicester.
Meirihluti Íslendingasagna inniheldur kvæði og má því segja að prósimetrum, eða samband kvæða og prósa, sé miðlægt í þessari einstöku bókmenntagrein. Bókin inniheldur tíu ritgerðir þar sem sérstaklega er tekið til rannsóknar samspil kvæða og prósa í sögunum og sú fagurfræði sem þar liggur að baki er greind frá fjölbreyttum sjónarhornum.
Höfundar eru fræðimenn á sviði norrænna miðaldabókmennta frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Danmörku, Þýskalandi og Íslandi.
Þar á meðal fjallar Guðrún Nordal, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðumaður Árnastofnunar, um dróttkvæði og höfundarauðkenni í greininni „Skaldic Verse as an Authorial Signature“ og Brynja Þorgeirsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild, fjallar um tilfinningatjáningu í greininni „Sensibilities in Saga Prosimetrum“.
Bókin er gefin út í opnum aðgangi hjá forlaginu De Gruyter, sjá nánar á vef forlagsins.