Skip to main content

Fréttir

Passíusálmarnir og tónlist

Hrafnaklukka. Mynd: Kristín M. Jóhannsdóttir.

 

Listvinafélag Hallgrímskirkju stendur fyrir málþingi í suðursal Hallgrímskirkju laugardaginn 26. janúar klukkan 14-17. Viðfangsefnið eru passíusálmarnir og tónlist þeirra.

Sérfræðingar um passíusálmana kynna rannsóknir sínar og svara spurningum. Ljósi verður beint að uppruna passísálmahefðar, bragarháttum þeirra og tónlist við sálmana.

Spurt er hvort passíusálmarnir séu ætlaðir til söngs og þá með hvaða lögum. Er þörf á nýrri útgáfu passíusálmanna með nótum? Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum talar um tengsl Passíusálma Hallgríms við evrópska hefð, Kristján Árnason prófessor talar um bragfræði sálmanna, Smári Ólason tónlistarfræðingur kynnir „gömlu lögin“ við passíusálmana og Halldór Hauksson kynnir þrjár íslenskar passíur sem byggja á Passíusálmum Hallgríms. Málþingsgestir fá að spreyta sig á „gömlu lögunum“, fjölbreytt tóndæmi verða borin fram auk kaffiveitinga.

Ævar Kjartansson, útvarpsmaður, stýrir umræðum.

Listvinir og allir unnendur Passíusálma Hallgríms Péturssonar eru velkomnir.

Aðgangur er ókeypis.