Skip to main content

Fréttir

Páll Sigurðsson: Aftökuörnefni 26. febrúar

Nafnfræðifélagið
svavar@hi.is

Nafnfræðifélagið efnir til fræðslufundar laugardaginn 26. febrúar, kl. 13.15, í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Páll Sigurðsson prófessor flytur erindi sem hann nefnir

Aftökuörnefni

Í erindi sínu mun Páll fjalla um örnefni, sem með einum eða öðrum hætti vísa til eða kunna að benda til refsiframkvæmdar fyrri tíma, þegar líflátshegningar voru í íslenskum lögum og meðan dauðadómum var framfylgt víða um land. „Aftökuörnefni“ má kalla þau örnefni, er vísa til lífláts dæmdra sakamanna. Sem dæmi má nefna örnefni eins og Drekkingarhylur, Brennugjá, Höggstokkseyri og Gálgaklettar, sem öll eru á alþingisstaðnum gamla á Þingvöllum. Vísa þau öll með vissu til refsiframkvæmdar þar. Víða um land gefur einnig að finna aftökuörnefni, m.a. á eða í grennd við gamla þingstaði. Eru ýmsar sagnir tengdar sumum þeirra, þó misjafnlega áreiðanlegar. Víða eru t.d. Gálgaklettar og Gálgagil, sem aftökusagnir tengjast, en þó er stundum alls óvíst eða jafnvel mjög ólíklegt að þar hafi aftökur farið fram í reynd.

Erindið tekur um 30 mínútur.