Nýsköpunarverðlaun 2011 hafa verið veitt. Verkefnið Skipulag rýminga vegna jökulhlaupa sem fylgja eldgosum í Kötlu og Eyjafjallajökli - Samstarf íbúa og almannavarnayfirvalda var verðlaunað að þessu sinni.
Þrjú önnur verkefni fengu sérstaka viðurkenningu. Eitt þeirra er veftól sem Landmælingar Íslands hafa þróað í samstarfi við nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Í umsögn dómnefndar um verkefnið segir:
„Um er að ræða nýja aðferð við að safna og miðla upplýsingum á gagnvirkan hátt í gegnum vefinn. Verkefnið þótti hafa mikið nýsköpunargildi. Um er að ræða virkilega frumleg tæki, annars vegar örnefnatól til að skrá örnefni og hins vegar örnefnasjá til að finna örnefni á tilteknum landsvæðum í gegnum veraldarvefinn. Verkefnið hefur þó nokkuð almannagildi og getur nýst bæði Íslendingum sem og erlendum borgurum. Jafnframt er þetta gagnvirka upplýsingatæki mikilvægur þáttur í grunnstarfsemi Landmælinga Íslands.“
Á heimasíðunni www.nyskopunarvefur.is má lesa um verðlaunin og verkefnin þrjú sem hlutu viðurkenningu.