Örnefnasöfnun og örnefnaskráning eru hugðarefni manna um land allt. Svavar Sigmundsson stofustjóri Örnefnasafns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fer á næstunni um landið og verður á fræðslufundum um örnefni. Svavar hefur um langt árabil rannsakað örnefni og mun hann m.a. ræða um söfnun örnefna á svæðunum, mikilvægi þeirra og skráningu. Ókeypis verður inn á fundina og gefst nægur tími til að spyrja Svavar um hvað eina sem fólk vill vita um örnefnasöfnun og örnefnaskráningu.
Stofnunin og menningarráð á landsbyggðinni standa fyrir fundunum í samstarfi við ýmis félög á svæðunum sem lesa má um með því að smella á landsvæðin hér fyrir neðan. Þar birtist einnig dagskrá fundar á hverjum stað en Helgi Pálsson og Rafn Sigurbjörnsson munu auk Svavars flytja erindi á fundinum á Blönduósi og Ragnhildur Helga Jónsdóttir og Sigurgeir Skúlason í Reykholti.
- Norðurland vestra: 22. september, kl. 16.00 í Snorrabúð á Hótel Blönduósi
- Norðurland eystra: 23. september, kl. 20.30 í Litlulaugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsýslu
- Austurland: 24. september, kl. 17.00 í Kaupvangi á Vopnafirði
- Vesturland: 30. september. kl. 13.00 í Snorrastofu í Reykholti
- Vesturland: 30. september, kl. 20.00 í Átthagastofu í Ólafsvík