Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur nú opnað aðgang að tölvutækum gögnum úr Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN).
Aðgangurinn er veittur með atbeina Já sem stutt hefur stofnunina með veglegum fjárstyrk í þessu skyni. Gögnin verða opin til ársloka 2012, að lágmarki.
Til að fylgja þessu framtaki eftir efnir Já til samkeppni um hugvitsamlega notkun á gögnunum. Engar hömlur eru settar á eðli verkefna sem unnin eru úr BÍN en verkefnin þurfa að vera ný. Samkeppnin er öllum opin nema starfsmönnum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Já.
Í tilefni af þessu er ný vefsíða opnuð í dag, 12. nóvember, en hún heitir Orðið.is. Þar er sagt frá keppninni og þar er líka ítarleg lýsing á opnu tölvutæku gögnunum.
Á síðunni er líka spjallsvæði sem er ætlað sem vettvangur umræðu um BÍN. Beygingarlýsinguna sjálfa er síðan að finna á sama stað og fyrr. Opnu gögnin eru aðgengileg í gegnum báðar slóðirnar.
Vegleg verðlaun verða veitt fyrir fyrstu 3 sætin í keppninni.
1. verðlaun: 300.000 kr
2. verðlaun: 100.000 kr
3. verðlaun: 50.000 kr
Þar að auki verður möguleiki á sérstökum aukaverðlaunum.
Nánari upplýsingar um samkeppnina má fá á heimasíðunni: