Skip to main content

Fréttir

Orðabók Kærleiksorðræðu í Eddu

Kona flettir bók við borð í fyrirlestrasal. nærmynd.
Martyna Daniel sýnir Orðabók Kærleiksorðræðu.
SSJ

Martyna Daniel, verkefnisstjóri hjá Borgarbókasafninu, kom í stutta heimsókn í Eddu á dögunum. Hún hélt fyrirlestur á vegum fyrirlestraraðarinnar Annars hugar og hafði meðferðis Orðabók Kærleiksorðræðu en í þeirri orðabók má finna fjölda nýrra og kærleiksríkra orða á íslensku. Útgáfu orðabókarinnar var fagnað á Bogarbókasafni Reykjavíkur í Grófinni á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2024.

Eftir fyrirlestur Martynu bauðst gestum að skoða orðabókina og gæða sér á kaffi og kleinum á kaffihúsinu Ými sem er nýtt kaffihús í Eddu.

Þetta var síðasti fyrirlestur vorsins hjá Annars hugar sem er samstarfsverkefni Árnastofnunar, Málvísindastofnunar og námsgreinarinnar Íslenska sem annað mál. Umsjón er í höndum Kára Páls Óskarssonar, bókmenntafræðings og aðjunkts við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Katelin Marit Parsons, verkefnisstjóra á Árnastofnun og aðjunkts við Háskóla Íslands.

Annars hugar er vettvangur fyrir íslensku sem annað mál þar sem hún fær að heyrast sem bókmenntamál og tungumál sköpunar. Fyrirlestrar eru öllum opnir, ungum sem öldnum, innfæddum sem útfæddum og fjöllendingum sem einlendingum!

Orðabók Kærleiksorðræðu er einnig aðgengileg á netinu.