Skip to main content

Fréttir

Orðabók Blöndals − Sýning í Þjóðarbókhlöðu

Sigfús Blöndal og samstarfsmenn hans árið 1918

Íslensk-dönsk orðabók eftir Sigfús Blöndal kom út á árunum 1920−1924 og er þess nú minnst með sýningu í Þjóðarbókhlöðu að öld er liðin frá því að hún kom fyrst út. Orðabókin er lykilverk í íslenskri orðabókasögu og er hún ein stærsta íslenska orðabókin sem hefur verið unnin til þessa. Sigfús vann að orðabókinni í fjölda ára ásamt eiginkonu sinni, Björgu Þorláksdóttur Blöndal. Fjöldi samverkamanna komu við sögu við gerð orðabókarinnar. Styrkir til starfsins og útgáfunnar komu frá dönskum sjóðum, svo og dönskum og íslenskum stjórnvöldum. Árið 2016 var tekin ákvörðun um að gera Íslensk-danska orðabók aðgengilega á vefnum.

Orðabókin er yfir þúsund blaðsíður sem hafa allar verið ljóslesnar, yfirfarnar og textinn gerður leitarbær. Útgefandi rafrænu gerðarinnar er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Verkefnið er fjármagnað af Íslensk-dönskum orðabókarsjóði.

Á myndinni má sjá ritstjóra og starfsmenn veforðabókarinnar, frá vinstri Halldóra Jónsdóttir, Þórdís Úlfarsdóttir, Ása Bergný Tómasdóttir, Bolli Magnússon, Oddur Snorrason og Árni Davíð Magnússon.