Fimmtudaginn 4. janúar var kunngert, við hátíðlega athöfn í húsakynnum Ríkisútvarpsins, hvert væri orð ársins 2017. Þetta er í þriðja sinn sem orð ársins er valið af almenningi en að kjörinu standa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nemendafélagið Mímir auk RÚV.
Af 10 orðum sem netnotendum gafst kostur á að velja á milli varð orðið epalhommi hlutskarpast. Næstflest atkvæði fékk orðið leyndarhyggja og í þriðja sæti var orðið líkamsvirðing. Rúmlega 5000 manns tóku þátt í kosningunni sem er umtalsverð aukning frá fyrra ári. Miklar umræður hafa spunnist um orð ársins sem var búið til af Hildi Lilliendahl af ákveðnu tilefni sem lesa má nánar um hér og hér. Á vefgáttinni málið.is má finna merkingu orðsins.
Við sama tækifæri var veitt úr menningarsjóðum Ríkisútvarpsins og STEFs. Svo vildi til að höfundur orðs ársins 2016, Hallgrímur Helgason, rithöfundur og myndlistarmaður, fékk nú viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Hallgrímur íslenskaði í fyrra enska orðið mansplaining og úr varð hrútskýring. Í þakkarræðu sinni kom hann þeim skilaboðum til hlustenda að mesta ógnin við íslenska tungu væri tungusófinn.
Í grein sem birtist á Hugrás er gerð grein fyrir hvernig orð ársins 2017 var valið.