Skip to main content

Fréttir

Opnunarathöfn og kynning á Færeyska beygingargrunninum

Þriðjudaginn 29. nóvember var haldin opnunarathöfn og kynning á Færeyska beygingargrunninum (Føroyska bendingargrunninum) í Loftsstovu Færeyskudeildar Fróðskaparsetursins í Þórshöfn í Færeyjum.

Verkefnið er samstarfsverkefni milli Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Fróðskaparsetursins og var unnið af Kristjáni Rúnarssyni hjá Árnastofnun og Heðini Jákupssyni og Zakarisi Svabo Hansen hjá Færeyskudeild Fróðskaparsetursins, með góðri leiðsögn og stuðningi Kristínar Bjarnadóttur, ritstjóra Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls (BÍN). Trausti Dagsson, verkefnisstjóri í upplýsingatækni hjá Árnastofnun, sá um uppsetningu á síðunni og Samúel Þórisson, verkefnisstjóri hjá Árnastofnun, aðlagaði gagnagrunn og bakenda kerfisins að Færeyska beygingargrunninum en hann er byggður á því kerfi og aðferðum sem þróaðar voru fyrir BÍN. Þá nýtir grunnurinn gögn sem unnin voru fyrir Rættstavaran, færeyskt stafsetningarleiðréttingarforrit en þau gögn voru á sínum tíma unnin að miklu leyti upp úr færeyskri orðabók.

Kristján Rúnarsson kynnti beygingargrunninn en vefsetur grunnsins var formlega opnað af Bergi Djurhuus Hansen forseta Færeyskudeildarinnar. Kristján kynnti vefinn og verkefnið nánar og loks miðlaði Kristín Bjarnadóttir af reynslu sinni sem ritstjóri BÍN og kynnti möguleika sem nýta má fyrir færeysku í framtíðinni.

 

Kristján Rúnarsson fyrir framan glærusýningu um Færeyska beygingargrunninn.
Kristján Rúnarsson

 

Bergur Djurhuus Hansen fyrir framan glærusýningu um Færeyska beygingargrunninn.
Bergur Djurhuus Hansen