Skip to main content

Fréttir

Opnun Íslensk-enskrar veforðabókar

Helstu aðstandendur Íslensk-ensku orðabókarinnar ásamt sendiherra Bretlands og ráðuneytisstjóra menningar-, nýsköpunar og háskólaráðuneytis.
SSJ

Íslensk-enskri veforðabók var hleypt af stokkunum við formlega opnun á bókasafni Eddu 23. október síðastliðinn. Hún er mikilvæg viðbót við þær tvímálaorðabækur sem stofnunin hefur birt undanfarin 14 ár en þær eru nú orðnar tíu talsins.

Vinna við Íslensk-enska veforðabók hófst árið 2021 sem rannsóknarverkefni þar sem prófaðar voru sjálfvirkar aðferðir til að flýta þýðingarvinnunni. Í framhaldinu fengust styrkir til að halda verkinu áfram.

Við opnunina fjölluðu aðstandendur orðabókarinnar um fjölþætt hlutverk tvímálaorðabóka og ýmis álitamál, t.a.m. varðandi ritstjórnarstefnu, orðskýringar og ólík orð á enskum málsvæðum.

Auk þess tóku til máls Bryony Mathew sendiherra Bretlands og Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytisstjóri menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis, sem opnaði vefinn formlega.

Myndin sýnir (frá vinstri) Bryony Mathew, Guðrúnu Nordal, Max Naylor, Björn Halldórsson, Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, Þórdísi Úlfarsdóttur og Halldóru Jónsdóttur.

Nánar um orðabókina

Orðabókin telur 56 þúsund uppflettiorð, 33 þúsund málnotkunardæmi og tíu þúsund orðasambönd. Upplesinn framburður fylgir öllum uppflettiorðunum og nýtist það einkum erlendum notendum sem læra íslensku. Orðabókin birtist eingöngu á vefnum og er hún ókeypis og öllum aðgengileg (enska.arnastofnun.is). Verkið birtist einnig á vefgáttinni m.is.

Grundvöllurinn að verkefninu er íslensk-skandinavíska veforðabókin ISLEX sem opnuð var á vefnum haustið 2011. Hún tengdi íslensku við dönsku, sænsku, nýnorsku og norskt bókmál og síðar bættust við finnska og færeyska (islex.arnastofnun.is). Síðan þá hefur íslenski orðagrunnurinn verið stækkaður og endurskoðaður og fleiri orðabækur hafa fylgt í kjölfarið. Næsta veforðabók, Lexía, hefur að geyma íslensk-franska og íslensk-þýska orðabók (lexia.arnastofnun.is) og nýlega gaf stofnunin út Íslensk-pólska veforðabók (polska.arnastofnun.is).

Aðalritstjóri orðabókarinnar er Þórdís Úlfarsdóttir og ritstjórar ensku eru Max Naylor og Björn Halldórsson. Að þýðingarvinnunni kom einnig Larissa Kyzer. Verkefnisstjóri er Halldóra Jónsdóttir.

Verkefnið hefur fengið fjárveitingu frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu auk styrkja frá Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur á vegum Háskóla Íslands.