Skip to main content

Fréttir

„og hlaust af þessu hvörtveggiu mesti siða spillir“

Nýi-Garður Háskóli Íslands.

 

Í málvísindakaffi Íslenska málfræðifélagsins og Málvísindastofnunar HÍ nk. föstudag, 4. apríl, heldur Kristján Friðbjörn Sigurðsson erindi sem hann nefnir „og hlaust af þessu hvörtveggiu mesti siða spillir“  - um ve/vö frá upphafi til nútíma. Nánari lýsing hans er hér fyrir neðan.

Málvísindakaffið verður að venju kl. 11.45-12.45 í st. 301 í Nýja-Garði.

Útdráttur:
Á 15. öld varð í íslensku hljóðbreyting sem nefnist ve/vö, sem gerði það að verkum að orð úr fornmáli á borð við hvelpur, kveld og hvernig urðu hvölpur, kvöld og hvörnig. Eins og sést á nútímamálsmyndum þessara orða urðu aðrar breytingar á sumum þeirra í kjölfarið og verður farið ofan í kjölinn á þessari hljóðþróun, allt til nútímamáls, og reynt að gefa einhverja heildarmynd af þessum tilbrigðum, sem virðast ekki hafa verið rannsökuð mikið nánar hingað til. Sérstaklega verður farið í saumana á þróun fornafnsins hver og annarra skyldra kerfisorða en þróun á rithætti þeirra kemur talsvert við sögu við mótun ritmálsstaðals á 19. öld. Greint verður frá athugun sem gerð var á rithætti  þessara orða í bréfasafni Árnastofnunar, í bréfum frá síðari hluta 19. aldar og varpað verður ljósi á misræmi ritháttar og framburðar í þessu tilliti, sem virðist hafa haldist langt fram á 20. öld.