Skip to main content

Fréttir

Nýtt veftímarit – Mannamál

Talblaðra á hvítum grunni. Inni í talblöðrunni stendur "Mannamál" og undir henni stendur "Vefrit um íslensku og önnur mál".
Mannamál

Vefurinn Mannamál, nýtt veftímarit um íslensku og önnur mál, var opnaður fimmtudaginn 12. desember á slóðinni mannamal.is. Vefritið, sem er á vegum íslenskusviðs Árnastofnunar, er nýr vettvangur til að miðla þekkingu og reifa álitamál er varða íslensku og önnur mál sem töluð eru hér á landi. Heiti vefritsins, Mannamál, er ætlað að vísa hvort tveggja til viðfangsefnisins og þess að við viljum koma því á framfæri á aðgengilegan og lifandi máta. Markhópurinn er stór og ekki síst viljum við ná til ungra lesenda.

Höfundar efnis koma úr ýmsum áttum en eiga það allir sameiginlegt að vinna markvisst með tungumál. Þeir starfa til dæmis við málfræðirannsóknir, tungumálakennslu, máltækni og stefnumótun sem varðar íslensku. 

Í vefritinu Mannamál verður boðið upp á efni af ýmsum toga. Nýlegar og áhugaverðar rannsóknir verða kynntar og helstu niðurstöður dregnar fram. Fjallað verður um nýjan og gamlan orðaforða, réttritun og málsnið. Birtar verða fréttir af nýjum útgáfum, viðtöl við áhrifafólk á tungumálasviðinu og umfjallanir um áhugaverð verkefni og ólík sjónarmið kynnt. Stefnt er að því að birta valdar greinar á ensku, pólsku eða öðrum erlendum málum. 

Með útgáfunni vonumst við til að efla áhuga á íslensku og öðrum tungumálum sem töluð eru á Íslandi. Einnig viljum við beina kastljósinu að hlutverkum tungumála í íslensku samfélagi og á alþjóðavettvangi og skoða stöðuna frá sjónarhóli móðurmáls- og annarsmálshafa. Við viljum fræða, skapa umræðu og vekja athygli á einkennum tungumála og skráðum og óskráðum reglum sem við getum verið meðvituð eða ómeðvituð um. 

Tengiliður er Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent og sviðsstjóri íslenskusviðs, helga.hilmisdottir@arnastofnun.is.