Skip to main content

Fréttir

Nýtt rit: Specimen Lexici Runici

Út er komið ritið Specimen Lexici Runici á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Viking Society for Northern Research. Þetta er fimmta ritið í ritröðinni Orðfræðirit fyrri alda.

Specimen Lexici Runici (Sýnishorn rúnaorðabókar) er fyrsta prentaða orðabókin um íslenskt mál. Hún var samin á fyrri hluta 17. aldar af séra Magnúsi Ólafssyni í Laufási (1573–1636) og gefin út í Kaupmannahöfn árið 1650. Uppflettiorðin eru með rúnaletri, þar af er hið latneska nafn bókarinnar dregið. Orðaforðinn nær fyrst og fremst yfir forníslensk rit, einkum Íslendingasögur, konungasögur og gamlan kveðskap sem ekki var til á prenti þegar orðabókin var gerð.

Í þessari nýju útgáfu eru prentaðar myndir af frumútgáfunni frá 1650, en á gagnstæðri síðu við hverja mynd er settur samsvarandi texti eftir handriti sem varðveitt er í Uppsölum í Svíþjóð og geymir uppskrift frumgerðar orðabókarinnar. Í inngangi er gerð grein fyrir tilurð orðabókarinnar og varðveislu textans. Þá eru rækilegar skýringagreinar við hverja orðsgrein í bókinni þar sem reynt er að grafast fyrir um í hvaða riti hvert einstakt orð kemur fyrst fyrir. Á eftir skýringagreinunum er texti handritsins í Uppsölum birtur í sinni upprunalegu mynd, en með leiðréttingum og athugasemdum neðanmáls. Að lokum er ítarlegur listi yfir öll helstu orð, orðatiltæki, orðtök og málshætti sem koma fyrir í bókinni.

Orðabók séra Magnúsar í Laufási varpar ljósi á sögu íslenskra orða og sýnir þekkingu og viðhorf lærdómsmanna til fornmennta á 17. öld sem var upphafsskeið íslenskra fræða.

Útgáfuna önnuðust Anthony Faulkes prófessor emeritus við háskólann í Birmingham og Gunnlaugur Ingólfsson rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Anthony Faulkes hefir áður gefið út á vegum Stofnunar Árna Magnússonar tvö rit séra Magnúsar í Laufási: Two Versions of Snorra Edda from the 17th Century (Rvík 1977-1979) og Magnúsarkver. The Writings of Magnús Ólafsson of Laufás (Rvík 1993).

  •